Innlent

Heldur færri skjálftar í nótt en undanfarnar nætur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga síðustu tvær vikur eða svo.
Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaga síðustu tvær vikur eða svo. Vísir/RAX

Alls hafa um 550 jarðskjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti en það eru færri skjálftar en undanfarnar nætur þegar þeir hafa verið á milli 700 til 1000 talsins.

 Tveir skjálftar mældust yfir þremur að stærð og var stærsti skjálfti næturinnar 3,3 að stærð. Hann varð klukkan 00:34 á 5,6 kílómetra dýpi með upptök 4,4 kílómetra norðnorðaustur af Grindavík.

Engin merki eru um óróa og var virkni næturinnar mest við Fagradalsfjall en einnig mældust skjálftar við Reykjanestá, Þorbjörn og Trölladyngju.

Í gær, þann 7. mars, mældust um 2.800 jarðskjálftar á Reykjanesskaga. Þar af hafa um 300 skjálftar verið yfirfarnir að því er segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Stærsti skjálftinn mældist 5,0 að stærð klukkan 02.01 aðfaranótt sunnudags og fannst víðs vegar á suðvesturhorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×