Körfubolti

Á­hugi frá Banda­ríkjunum en hugurinn leitar til Evrópu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Styrmir Snær í leik gegn Stjörnunni fyrr í vetur.
Styrmir Snær í leik gegn Stjörnunni fyrr í vetur. vísir/elín

Hinn nítján ára gamli Styrmir Snær Þrastarson hefur leikið á als oddi í liði Þórs úr Þorlákshöfn í Domino’s deild karla á leiktíðinni.

Hann ræddi við Ríkharð Óskar Guðnason í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld um tímabilið til þessa en hinn ungi Styrmir er einn af lykilmönnunum í liði Þórs sem er í öðru sæti deildarinnar.

„Markmiðin fyrir tímabilið voru að gera sem best og bæta okkur frá leik til leik. Við vildum komast eins langt og við getum,“ sagði Styrmir Snær sem var valinn í A-landsliðið á dögunum.

„Með góðri æfingu og góðri frammistöðu þá náði ég markmiðinu að komast í A-landsliðið.“


Styrmir var stórkostlegur gegn Haukum á dögunum. Skoraði hann 32 stig en það er það mesta sem Íslendingur hefur gert í deildinni í vetur.

„Ég hitti á minn dag. Þannig eru sumir dagar,“ sagði Styrmir sem bætti því við að sjálfstraustið hefði hækkað eftir ferðina með landsliðinu.

„Jú, klárlega. Ég held að það gerist þegar maður fer út með landsliðinu og æfir með betri mönnum.“

Lárus Jónsson tók við liði Þórs fyrir tímabilið og Styrmir þakkar honum fyrir traustið.

„Það er geggjað. Hann gefur manni allt traust sem maður þarf að fá sem ungur leikmaður.“

Hann stefnir á að spila erlendis í náinni framtíð.

„Hugurinn leitar út og það eru bæði Evrópa og Bandaríkin sem koma til greina. Ég hef fengið áhuga frá Bandaríkjunum en það er verið að leita eftir hinu.“

Klippa: Sportpakkinn - Styrmir Snær

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×