Innlent

Snarpur morgunskjálfti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skjálftavirkni hefur verið mikil á Reykjanesi undanfarnar vikur.
Skjálftavirkni hefur verið mikil á Reykjanesi undanfarnar vikur. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálfti fannst vel á suðvesturhorninu um klukkan 08:49 í morgun. Stærð hans reyndist 4,6 en skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Skjálftinn varð rétt austur af Fagradalsfjalli.

Yfir 700 skjálftar mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti. Samkvæmt töflu á vef Veðurstofunnar hafa þeir langflestir verið við Fagradalsfjall. Þá hafa nokkrir einnig átt upptök sín norður eða norðaustur af Grindavík. 

Sá stærsti klukkan 03:14 í nótt var 5,1 að stærð. Að sögn Huldu Rósar Helgadóttur, náttúrvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, fannst skjálftinn víða um land og bárust Veðurstofunni tilkynningar um að skjálftinn hefði fundist allt austur í Fljótshlíð og vestur í Búðardal.

Hulda tjáði fréttastofu í morgun að enginn órói hefði fylgt þessum stóra skjálfta. Þá væri ekki að sjá að kvika væri komin upp á yfirborðið á svæðinu.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×