Erlent

Wa­yne Couzens á­kærður fyrir morðið á E­verard

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Wayne Couzens hefur verið ákærður fyrir morðið á Söruh Everard.
Wayne Couzens hefur verið ákærður fyrir morðið á Söruh Everard. Skjáskot

Lögreglumaðurinn Wayne Couzens hefur verið ákærður fyrir að hafa rænt og myrt Söruh Everard, sem hvarf 3. mars síðastliðinn.

Couzens, sem er á fimmtugsaldri, mun mæta fyrir dóm á morgun þar sem hann verður formlega ákærður fyrir morðið. Hann var handtekinn þann 9. mars síðastliðinn.

Líkamsleifar Everard fundust í skóglendi nærri Ashford í Kent á miðvikudag, en þá var meira en vika liðin síðan hún sást síðast á göngu. Hún var á leið heim frá vini þegar síðast sást til hennar en óvíst er hvort hún hafi komist alla leið heim til sín.

Þann 5. mars lýsti lögregla eftir Everard og daginn eftir gaf fjölskylda hennar út yfirlýsingu og sagði það ekki henni líkt að láta sig hverfa. Þann 7. mars komu svo í ljós myndbandsupptökur þar sem Everard sást á göngu um klukkan 21:30.

Auk Couzens var kona handtekin sem talin er vera viðriðin málið. Henni hefur hins vegar verið sleppt gegn tryggingu.


Tengdar fréttir

Hafa fundið líkamsleifar Everard

Bresk lögregluyfirvöld hafa staðfest að líkamsleifar sem fundust í gær eru Sarah Everard, sem sást síðast á göngu 3. mars sl. Lögreglumaður hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa rænt og myrt Everard.

Fundu lík í leitinni að Söruh Everard

Breskir lögregluþjónar hafa fundið lík í leitinni að Söruh Everard. Líkið fannst í skógi í Ashford, suðaustur af Lundúnum. Lögregluþjónn er grunaður um að hafa rænt henni og myrt hana en hún hvarf þann 3. mars þegar hún var á leið heim eftir heimsókn til vinafólks.

Lög­reglu­maður í London hand­tekinn vegna hvarfs Söruh E­verard

Lögreglumaður í London hefur verið handtekinn í Kent í tengslum við rannsókn á hvarfi hinnar 33 ára Söruh Everard. Ekkert hefur spurst til Everard í heila viku en síðast sást til hennar þegar hún yfirgaf heimili vinar síns í Clapham í suðurhluta bresku höfuðborgarinnar að kvöldi miðvikudagsins 3. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×