Þetta skrifar fjölskylda Freyju Egilsdóttur Mogensen, sem var myrt í Malling í Danmörku í febrúar, í minningargrein sem birtist á Stiftstidende Århus í dag.
Þau segja að á þessum erfiðu tímum hafi það veitt þeim mikla huggun að finna fyrir stuðningi fjölskyldu, vina og samfélagsins í Malling.
„Frá okkar dýpstu hjartarótum viljum við þakka öllum þeim sem hafa hugsað til okkar og gefið okkur styrk,“ skrifar fjölskylda hennar.
Fór í skiptinám til Austurríkis og Frakklands
Fjölskyldan skrifar um æviágrip Freyju, sem fæddist árið 1977 og flutti ung að aldri til Selfoss þar sem hún ólst upp. Eftir að Freyja lauk skólagöngu sinni leið ekki á löngu þar til hún fór að hugsa sér til ferðar. Þegar hún var sautján ára gömul flutti hún sem skiptinemi til Austurríkis og bjó þar hjá fjölskyldu sem hún hefur haldið sambandi við alla tíð.
„Nokkrum árum seinna, eftir menntaskólann, flutti hún ein síns liðs til Frakklands til þess að fara í nám. Þar var hún, eins og alls staðar annars staðar, vinsæl og vel liðin,“ segir í minningargreininni.
„Freyja var mjög klár, hún átti auðvelt með að læra og talaði fimm tungumál. Á leið sinni heim frá Frakklandi heimsótti hún fjölskylduna sína í Austurríki og tvær systur sínar sem bjuggu í Danmörku. Freyja var hugfangin af Danmörku og hún ákvað að búa þar um tíma, sem varð að lokum öll hennar ævi.“
„Veturinn 2021 var Freyja skyndilega tekin frá okkur“
Freyja nam málvísindi við háskólann í Árhúsum en vegna fárra atvinnutækifæra í greininni fór hún í tveggja ára framhaldsnám á sviði félagsþjónustu- og heilbrigðismála.
„Það var eitt sem Freyja þráði meira en allt og það var að stofna sína eigin fjölskyldu. Hún elskaði og dáði börnin sín þrjú, Alex, Lúkas og Emmu. Hún var harmi slegin þegar hún missti tvíburasystur Emmu í fæðingu,“ segir í minningargreininni.
„Veturinn 2021 var Freyja skyndilega tekin frá okkur og skyldi hún eftir sig tvö ung börn, stjúpson, aldraða móður, þrjár systur og stóra fjölskyldu sem eru harmi slegin. Hún skilur eftir mikið tóm sem verður aldrei fyllt.“
„Freyja, móðir okkar, systir, dóttir, fjölskylda, vinur og kollegi. Þín verður saknað það sem eftir er og þú munt ávallt lifa í hjörtum okkar. Við elskum þig.“
Í fyrri útgáfu fréttar sagði að Freyja hafi farið í skiptinám til Ástralíu en ekki Austurríkis. Þetta hefur verið lagfært.