Innlent

Sjá mikinn og fallegan rauðan bjarma úr Grindavík

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vilhjálmur Árnason þingmaður.
Vilhjálmur Árnason þingmaður.

„Maður sér bara mikinn og fallegan rauðan bjarma fyrir austan bæinn,“ segir Vilhjálmur Árnason þingmaður um gosið sem hafið er við Fagradalsfjall.

Hann segir bæjarbúa hafa orðið vara við gosið um hálftíu í kvöld.

„Þá fór til dæmis tengdapabbi út í sjoppu og sá ekki neitt en tók eftir þessu þegar hann kom til baka; að það var einhver skrýtin birta þarna,“ segir hann.

En hvernig er stemningin í bænum?

„Fólk er bara mjög spennt og áhugasamt. Ég finn ekki að fólk sé hrætt.“

Vilhjálmur segir mikla umferð úr bænum og að gossvæðinu.

„Umferðin minnir bara á Þingvelli á þjóðhátíðardaginn. Á Grindavíkurvegi er bíll í bíl og fólk byrjað að labba upp á fell og annað tli að sjá betur. En í rauð sjáum við bara þennan rauða bjarma.“

Vilhjálmur segir í raun betra að sjá gosið úr fjarlægð en nær, vegna landslagsins.

Þess ber að geta að Almannavarnir hafa biðlað til fólks um að halda sig heima á meðan vísindamenn og viðbragðsaðilar kanna aðstæður á vettvangi. Búið er að loka Reykjanesbraut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×