Fótbolti

Skoraði í síðasta fótboltaleiknum sínum og fékk bónorð í leikslok

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matt Stonham bað Rhali Dobson strax eftir síðasta leikinn hennar eins og sjá má á þessari mynd.
Matt Stonham bað Rhali Dobson strax eftir síðasta leikinn hennar eins og sjá má á þessari mynd. Getty/Darrian Traynor

Ástralska knattspyrnukonan Rhali Dobson er að leggja skóna á hilluna aðeins 28 ára gömul svo hún geti hjálpað kærasta sínum í baráttunni við heilaæxli. Hann beið hennar við hliðarlínuna með trúlofunarhring eftir síðasta leikinn.

Rhali Dobson er framherji ástralska liðsins Melbourne City og var að spila sinn síðasta leik á ferlinum. Dobson kvaddi með því að skora eitt marka Melbourne City í 2-1 sigri á Perth Glory.

Það var þó ekki markið hennar sem stal fyrirsögnum í fjölmiðlum heimsins heldur það sem gerðist strax eftir leikinn.

Matt, kærasti Rhali, greindist aftur með heilaæxli á dögunum og framundan er bæði erfið geislameðferð og lyjameðferð. Hún ætlar að vera til staðar fyrir hann á þessum erfiða og krefjandi tíma og ákvað því að hætta að spila fótbolta.

Eftir leikinn þá fór Rhali til Matt mjög sátt með markið sitt og sigurinn. Kvöldið átti þó eftir að verða enn betra.

Matt fór nefnilega út á grasið og niður á hné. Hann tók síðan upp hring og bað hennar. Rhali sagði já við mikinn fögnið viðstaddra ekki síst liðsfélaga hennar sem hópuðust í kringum hana og glöddust með henni.

Matt hafði látið fjarlægja æxli í heila fyrir sex árum eftir að hafa fengið flog á fótboltavellinum. Nú tók krabbameinið sig aftur upp og framundan er geislameðferð til maí og svo tólf mánaða lyfjameðferð.

„Við uppgötvuðum þetta nokkuð snemma og þetta lítur betur út af því hann er svo ungur. Hann var með engin einkenni og þetta var bara venjubundin læknisskoðun,“ sagði Rhali Dobson og það var aldrei vafi hjá henni að kveðja fótboltann.

„Hann er stærri en sportið. Hann er heimurinn minn,“ sagði Dobson.

Hér fyrir ofan má sjá þessa skemmtilegu stund þegar Matt bað hennar eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×