
Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að Fagradalsfjall hafi verið nefnt fjallið sem breytti mannkynssögunni, ekki vegna eldgossins heldur vegna flugslyss sem varð þar í síðari heimsstyrjöld. Minnisvarði um slysið var afhjúpaður skammt frá Grindavíkurvegi árið 2018, daginn sem 75 ár voru frá slysinu.

Slysið varð þann 3. maí 1943. Sprengjuflugvél af gerðinni B-24 Liberator hafði hætt við lendingu í Keflavík vegna veðurs og er talin hafa verið á leið til Kaldaðarnesflugvallar þegar hún skall á Fagradalsfjalli. Einn maður komst lífs af en fjórtán fórust, þeirra á meðal hershöfðinginn Frank M. Andrews, og fóru minningararhafnir um þá látnu fram í Reykjavík.

Fráfall Andrews varð til þess að Dwight D. Eisenhower varð yfirmaður herafla Bandaríkjamanna í Evrópu en hann varð síðar forseti Bandaríkjanna. Æ síðar hafa menn velt því upp hvort það hefði annars orðið hlutskipti Andrews að setjast í Hvítahúsið en ekki Eisenhowers.

Minningu Andrews er haldið á lofti í Washington með því að Andrews-herflugvöllurinn, heimaflugvöllur flugvéla Bandaríkjaforseta, er nefndur eftir honum. Andrews Theater á gamla varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli er einnig kennt við hann.

Flugvélin hafði gælunafnið Hot Stuff og var á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna með millilendingu á Íslandi. Slysstaðurinn er í vestanverðu Fagradalsfjalli, aðeins um tvo kílómetra frá gosstaðnum, og varpaði bandaríska sendiráðið því fram á fésbókarsíðu í vikunni hvort það væri nokkurt heiti sem hæfði betur eldstöðinni en Hot Stuff.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: