Fótbolti

Davíð Snorri: Stoltur af liðinu

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Davíð hughreystir fyrirliða sinn, Jón Dag Þorsteinsson, eftir leikinn gegn Dönum í dag.
Davíð hughreystir fyrirliða sinn, Jón Dag Þorsteinsson, eftir leikinn gegn Dönum í dag. vísir/Getty

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U21 árs landsliðs karla, kvaðst stoltur af liði sínu eftir 0-2 tap gegn Danmörku í lokakeppni EM sem fram fer í Ungverjalandi þessa dagana.

„Svekktur með tap. Stoltur af strákunum hvernig við héldum áfram. Stoltur af því hvað við lögðum í þetta. Við áttum að skora mark og opna leikinn enn betur. Mjög svekktur en flott hvernig við vinnum okkur inn í leikinn,“ sagði Davíð í viðtali við RÚV í leikslok.

Danir skoruðu tvö mörk á fyrstu 20 mínútu leiksins. Hvernig upplifði Davíð þessi mörk?

„Þeir ná að spila á milli okkar. Þeir eru góðir í þessari stöðu og við vissum það fyrir leik. Seinna markið er úr föstu leikatriði og það er þriðji bolti sem dettur fyrir þá. Það gerist en við eigum að gera betur,“ sagði Davíð.

Hann var ánægður með hvernig liðið brást við því að lenda tveimur mörkum undir svo snemma

„Skipulagið var gott og við erum með gott lið. Við vorum einbeittir og það voru nokkur atriði sem við ætluðum að laga. Við gerðum það og þegar leið á leikinn fengum við momentin sem við stefndum á að fá. Við héldum alltaf áfram,“ sagði Davíð.

Ljóst er að Ísland þarf á kraftaverki að halda til að komast upp úr riðlinum eftir tvö töp í fyrstu tveimur leikjunum en liðið á þó eftir að leika einn leik til viðbótar þar sem þeir mæta Frökkum.

„Þetta er landsleikur og við erum stoltir af því að spila landsleik. Við erum hér á stóru sviði og við ætlum að nýta hverja einustu mínútu 100% til að þróa okkar leik svo það er bara áfram með þetta,“ sagði Davíð Snorri ákveðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×