Fótbolti

Arnar Þór kallar fjóra úr U-21 árs landsliðinu inn í A-landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði U-21 árs landsliðsins, hefur verið kallaður inn í A-landsliðið.
Jón Dagur Þorsteinsson, fyrirliði U-21 árs landsliðsins, hefur verið kallaður inn í A-landsliðið. getty/Peter Zador

Fjórir leikmenn úr EM-hópi U-21 árs landsliðsins hafa verið kallaðir upp í A-landsliðið fyrir leik þess gegn Liechtenstein á miðvikudaginn.

Þetta eru þeir Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson, Ísak Bergmann Jóhannesson og Sveinn Aron Guðjohnsen. Þeir koma til móts við A-landsliðið í kvöld.

Albert Guðmundsson verður í leikbanni gegn Liechtenstein, Ragnar Sigurðsson meiddist í upphitun fyrir leikinn gegn Armeníu í gær og Kolbeinn Sigþórsson meiddist á handlegg í leiknum. Óvíst er með þátttöku hans gegn Liechtenstein.

Þeir Jón Dagur, Willum, Ísak og Sveinn Aron léku allir með U-21 árs liðinu í fyrstu tveimur leikjum þess á EM, gegn Rússlandi og Danmörku. Sveinn Aron skoraði eina mark Íslands á mótinu. Íslendingar mæta Frökkum í lokaleik sínum á EM á miðvikudaginn.

Landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson þekkir vel til fjórmenninganna en hann þjálfaði þá alla í U-21 árs liðinu.

Jón Dagur, Willum og Ísak hafa allir leikið A-landsleik en Sveinn Aron gæti þreytt frumraun sína með A-landsliðinu gegn Liechtenstein í Vaduz á miðvikudagskvöldið.

Ísland tapaði 2-0 fyrir Armeníu í gær og er án stiga eftir fyrstu tvo leiki sína í undankeppni HM 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×