Fótbolti

„Fannst ég eiga skilið að byrja“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Fannar Baldursson í leik Íslands og Danmerkur á sunnudaginn.
Andri Fannar Baldursson í leik Íslands og Danmerkur á sunnudaginn. getty/Chris Ricco

Andri Fannar Baldursson viðurkennir að hann hafi verið svekktur að byrja ekki inn á í leik Íslands og Danmerkur á EM U-21 árs liða á sunnudaginn.

Andri Fannar, sem leikur með Bologna í ítölsku úrvalsdeildinni, kom inn á um miðjan seinni hálfleik og átti ágætis innkomu. Hann hefði þó fremur kosið að byrja leikinn.

„Auðvitað var ég svekktur. Mér fannst ég eiga skilið að byrja. En þjálfararnir velja byrjunarliðið og ég virði ákvörðun þeirra,“ sagði Andri Fannar á blaðamannafundi í Györ.

„Ég var þokkalega ánægður með mína innkomu. Auðvitað hefði ég viljað að liðið myndi skora og fá aðeins meiri trú en ég var frekar sáttur.“

Slæmt hælsæri plagaði Andra Fannar fyrstu dagana í Ungverjalandi og bora þurfti gat aftan á skó hans til þess að hann kæmist í hann.

„Ég er orðinn góður og er í toppstandi en fyrst var þetta frekar mikið vesen. Ég hef aldrei fundið jafn mikinn sársauka í hælnum og komst ekki í skóinn. Við prófuðum svo að gera gat á skóinn og það virkaði,“ sagði Andri Fannar.

Ísland hefur tapað báðum leikjum sínum í C-riðli Evrópumótsins en á samt enn veika von um að komast áfram í átta liða úrslit.

Ísland mætir Frakklandi í lokaumferð riðlakeppninnar á EM klukkan 16:00 á morgun. Leikurinn verður í beinni textalýsingu á Vísi.


Tengdar fréttir

„Megum ekki gleyma að við eigum enn möguleika“

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari U-21 árs landsliðs karla, segir að ekki megi gleyma því að Ísland eigi enn möguleika á að komast áfram í átta liða úrslit Evrópumótsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×