Innlent

„Jökulkalt þarna upp frá og engar aðstæður til að stoppa“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr stjórnstöðinni í Grindavík í morgun.
Úr stjórnstöðinni í Grindavík í morgun. Vísir/Egill

Opnað var á aðgengi almennings að gosstöðvunum á Reykjanesskaga í morgun en leiðindaveður hefur gert það að verkum að fáir hafa lagt í gönguna.

Kristín Ólafsdóttir fréttamaður okkar ræddi við Hjálmar Hallgrímsson vettvangsstjóra lögreglu á svæðinu í beinni útsendingu fyrir utan stjórnstöð björgunarsveitanna í Grindavík í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Aðstæður eru þannig að það eru svona 18-21 m/s þarna upp frá, sex stiga frost og bara ískalt. Við mælum ekki með því að fólk sé að fara en svæðið er vissulega opið,“ segir Hjálmar.

Frá aðgerðum í stjórnstöð.Vísir/Egill

„Þarna á svæðinu eru komnir einhverjir fjörutíu bílar svo þetta eru fimmtíu til hundrað manns. Ég heyrði í fólki sem var upp frá sem sagði að það væri jökulkalt þarna upp frá og engar aðstæður til að stoppa eða virða gosið fyrir sér.“

Þeir sem ætla að leggja á sig kuldagöngu í dag ættu að fara svokallaða b-leið um Nátthagakrika að sögn Hjálmars. Gasmengun sé til skoðunar en sem betur fer mikill vindur á svæðinu að sögn Hjálmars. Svæðið sem brennur sé þó orðið stórt og fer stækkandi. Fólk geti því fundið fyrir gasi víða.

Hann mælir ekki með göngum í dag.

„Nei, ég myndi bíða með það. Það munu koma betri dagar. Eftir að hafa heyrt í fólki sem fór þarna upp eftir þá var það sammála því. Þetta er svokallað gluggaveður. EKki vera að þvælast þangað upp eftir í dag.“

Að neðan má sjá hvernig blæs á gosstöðvunum .




Fleiri fréttir

Sjá meira


×