„Þetta var stórkostlegt en það var mjög kalt,“ segir Rannveig Marta Sarc þegar fréttamann bar að garði. „Og mikill vindur.“
Rannveig kom til landsins fyrir rúmri viku ásamt kærasta sínum, Brian Hong, en þau komu hingað alla leið frá Chicago.
„Það eru engin eldfjöll þar,“ segir Brian og hlær.
Hann segir að sjónarspilið hafi verið stórfenglegt.
„Það vall svo mikið hraun úr sprungunum. Við komumst ekki svo nálægt í dag vegna gassins og öryggisreglna en þetta var alveg stórkostlegt,“ segir Brian.
Hann segir að gangan hafi tekið nokkuð á.
„Á leiðinni niður hélt ég stundum að ég gæti dáið en við lifðum þetta af,“ segir Brian og hlær.
Fékk að sjá Heklu gjósa árið 1970
Þetta er annað skiptið sem Brian heimsækir Ísland. Móðir Rannveigar, Svava Bernharðsdóttir, segir ekki annað hafa verið hægt en að sýna unga fólkinu eldgosið.
„Dóttir mín og tengdasonur komu til landsins og ég var með mikinn móral yfir því að hafa aldrei sýnt henni eldgos. Það er ekki hægt að íslensk móðir sýni dóttur sinni ekki eldgos. En núna get ég hakað við það, nú er ég útskrifuð, nú getur hún farið að heiman,“ segir Svava.
Þetta er ekki fyrsta skiptið sem Svava ber eldgos augum en hún var búsett austur á Skeiðum þegar Hekla gaus árið 1970.
„Við sáum það bara út um stofugluggann. Reyndar var ég að horfa á sjónvarpið þegar Eiður Guðnason fréttamaður stöðvaði útsendinguna, fölur í framan, og sagði að Hekla væri byrjuð að gjósa,“ segir Svava.
„Við flugum út í stofu og horfðum á. Við fórum svo næsta dag alveg upp að hrauninu, það var ógleymanlegt. Nú fengu þau allan pakkann, eld og ís, Ísland í hnotskurn,“ segir Svava.