Innlent

Stærsti jarðskjálfti síðan fjórum dögum fyrir gos

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Jarðskjálftinn í kvöld varð skammt frá fjallinu Þorbirni, sem er í grennd við gosstöðvarnar og Grindavík.
Frá gosstöðvunum við Fagradalsfjall. Jarðskjálftinn í kvöld varð skammt frá fjallinu Þorbirni, sem er í grennd við gosstöðvarnar og Grindavík. Vísir/vilhelm

Snarpur jarðskjálfti fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og víðar á suðvesturhorninu nú skömmu eftir klukkan ellefu í kvöld. Skjálftinn var 4,1 að stærð, að því er fram kemur í tilkynningu frá Veðurstofunni.

Salóme Jórunn Bernharðsdóttir náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að upptök jarðskjálftans hafi verið um þrjá kílómetra norðaustan af fjallinu Þorbirni á Reykjanesskaga. 

Skjálftinn er jafnframt sá stærsti sem mælst hefur á Reykjanesskaga síðan 15. mars, eða fjórum dögum áður en eldgosið við Fagradalsfjall hófst. Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið nú á tólfta tímanum.

Innt eftir því hvort skjálftinn gæti tengst hræringum á gosstöðvunum, eða jafnvel verið undanfari einhverra breytinga, segir Salóme erfitt að segja til um það.

„Við höfum verið að sjá skjálfta á þessu svæði þannig að eins og er þá er þetta bara flekahreyfingar en svo þurfum við bara að sjá hvað gerist í kjölfarið,“ segir Salóme.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fannst skjálftinn vel víða á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesskaga. Þá hefur Veðurstofan fengið tilkynningar um að íbúar allt austur á Hellu og norður í Grundarfjörð hafi fundið fyrir skjálftanum.

Staðsetning skjálftans sést hér merkt með grænni stjörnu á korti Veðurstofunnar.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 23:50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×