Joan Laporta, forseti Barcelona, er ekki búinn að gefa Ofurdeildina upp á bátinn þrátt fyrir slæmar fréttir af brottfalli liða úr henni. Hann segir þó að félagsmenn Barcelona muni ráða því hvað Barcelona gerir á endanum.
Barcelona var einn af tólf stofnmeðlimum Ofurdeildarinnar og hefur ekki dregið sig út úr henni eins og ensku liðin sex sem dæmi. Alls hafa átta félög hætt við þátttöku og flestir spekingar og fjölmiðlamenn hafa talið eins og að Ofurdeildin sé dauð.
Joan Laporta hjá Barcelona og kollegi hans Florentino Perez eru þó enn að reyna að sannfæra menn um Ofurdeildin sé enn möguleiki og í raun nauðsynleg fyrir fótboltann.
„Við vorum með sæti og eigum það ennþá. Við viljum útskýra okkar afstöðu,“ sagði Joan Laporta við TV3 en ESPN segir frá.
„Okkar afstaða er sú að við viljum fara varlega en að Ofurdeildin sé nauðsynleg. Að sama skapi munu félagsmenn okkar ráða því hvað við gerum á endanum,“ sagði Laporta.
„Það er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að stóru liðin, miðað við hvað þau búa til mikið af tekjunum, að við höfum eitthvað að segja með það hvernig tekjunum sé skipt niður. Við teljum það líka mikilvægt að þetta verði aðlaðandi keppni byggð á íþróttagildum,“ sagði Laporta.
„Við viljum verja deildirnar heima fyrir og erum því alltaf tilbúnir í viðræður við UEFA. Það er okkar forsenda. Allir vilja gera fótboltann betri og við höfum allt til alls til að gera hann að frábæru sjónarspili. Ef stóru liðin hafa ekki þessi fjárráð þá mun fótboltinn skaðast,“ sagði Joan Laporta.