Fótbolti

Fyrrverandi þýskur landsliðsmaður dæmdur fyrir vörslu barnakláms

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Christoph Metzelder í dómssal í Düsseldorf í dag.
Christoph Metzelder í dómssal í Düsseldorf í dag. getty/Sascha Steinbach-Pool

Christoph Metzelder, fyrrverandi landsliðsmaður Þýskalands og leikmaður Real Madrid, hefur verið dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslu barnakláms.

Metzelder var handtekinn í september 2019 en um þrjú hundruð myndir og myndbönd með barnaklámi fundust heima hjá honum.

Í dag var Metzelder svo dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi. Dómurinn var ekki lengri þar sem Metzelder hafði ekki brotið af sér áður.

Metzelder, sem er fertugur, var í þýska landsliðinu sem vann silfur á HM 2002 og brons á HM 2006.

Metzelder lék lengst af ferilsins með Borussia Dortmund og varð þýskur meistari með liðinu 2002. Hann fór til Real Madrid 2006 en lék aðeins 31 leik með liðinu á þremur árum. Síðustu ár ferilsins lék Metzelder með Schalke.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×