Fótbolti

Stórsigur Man. Utd kom ensku deildinni aftur á toppinn eftir níu ára fjarveru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bruno Fernandes og Paul Pogba fagna hér einu af sex mörkum Manchester United á móti Roma á Old Trafford í gær.
Bruno Fernandes og Paul Pogba fagna hér einu af sex mörkum Manchester United á móti Roma á Old Trafford í gær. AP/Jon Super)

Enska úrvalsdeildin er aftur að verða besta fótboltadeildin í Evrópu samkvæmt mælikvörðum Knattspyrnusambands Evrópu.

Manchester United tryggði ensku úrvalsdeildinni toppsætið með 6-2 sigri á Roma á Old Trafford í gærkvöldi í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Evrópudeildinni. ESPN segir frá þessu.

La Liga á Spáni hefur setið í toppsætinu undanfarin níu ár en nú er ljóst að Spánverjar eru að fara missa efsta sætið til Englendinga.

Það skiptir engu þótt að Real Madrid vinni Meistaradeildina og Villarreal vinni Evrópudeildina. Það er meira segja ágætur möguleiki á því að ensk lið mætir í úrslitaleik beggja keppna.

Enska úrvalsdeildin var síðast besta fótboltadeildin hjá UEFA frá 2007-08 til 2011-12. Ensku liðin hafa gert betur en þau spænsku á þremur af síðustu fimm tímabilum. Það er hætt við að munurinn aukist í framhaldinu því á næsta ári dettur út eitt besta tímabil spænsku deildarinnar og langversta tímabil ensku deildarinnar á síðustu árum.

Þetta tímabil sem er nú í hangi er það besta hjá ensku liðunum í Evrópu enda eiga Englendingar fjögur af átta liðum í undanúrslitum Evrópukeppnanna tveggja.

Knattspyrnusamband Evrópu er með sérstakt stigakerfi til að setja saman styrkleikaröð deildanna. Hver sigurleikur gefur landinu tvö stig og þá eru bónusstig fyrir að komast á ákveðið stig í keppnunum tveimur. Þetta stigakerfi er síðan notað til að ákveða fjölda Evrópusæti fyrir hvert land og er ástæðan fyrir að Ísland er að missa eitt Evrópusæti.

Besta knattspyrnudeild Evrópu:

  • (UEFA COEFFICIENT TABLE)
  • 1. England 98.997
  • 2. Spánn 97.425
  • 3. Ítalía 75.153
  • 4. Þýskaland 73.570
  • 5. Frakkland 56.081



Fleiri fréttir

Sjá meira


×