Lögreglan á Norðurlandi vestra segir frá þessu, en alls greindust þrír með veiruna innanlands í gær, þar af einn utan sóttkvíar.
„Í gærkvöldi greindust tvö ný smit í póstnúmeri 550 [Sauðárkróki], en að sama skapi fækkar um einn í yfirlitinu þar sem að sá aðili mun taka út sína einangrun í öðru sveitarfélagi. Færist hans skráning því þangað. Engu að síður er fjöldinn orðinn 11 síðan að þetta verkefni hófst,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu.
Auk þess er 281 maður í sóttkví í póstnúmerinu 550, Sauðárkróki, og sextán til viðbótar í póstnúmerinu 551, helstu nærsveitum bæjarins. Í heildina eru 345 manns í sóttkví í umdæmi lögreglunnar á Norðurlandi vestra.
Gripið var til harðra aðgerða í Skagafirði og Akrahreppi um helgina vegna fjölgunar smita. Ákváðu almannavarnir að þær tilslakanir sem tóku gildi annars staðar á landinu á mánudaginn myndu ekki eiga við svæðið að svo stöddu. Leikskólum, grunnskólum og sundlaugum var einnig lokað og ýmsum íþróttaviðburðum frestað.