Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að svo virðist sem sóttvarnir í búðinni hafi verið til í mjög góðu lagi.
„Þannig að við bindum vonir um að smit hafi ekki átt sér stað til kúnnanna. Það hefur verið mikið spurt um það og við höfum fengið margar fyrirspurnir frá þeim sem hafa farið í umrædda verslun hvort þeir séu í hættu og hvað þeir eigi að gera,“ sagði Þórólfur.
Hann sagðist skora á þá sem fóru í verslun H&M á Hafnartorgi síðustu daga fara með gát. Miðað sé við þá sem hafi farið í búðina frá síðustu helgi.
„Þeir þurfa ekki endilega að fara í skimun eða gera neitt sérstakt en fara með gát. Ef þeir fara að finna fyrir einhverjum einkennum að fara strax í sýnatöku,“ sagði Þórólfur. „Nema rakningarteymið hafi sérstaklega samband við fólk.“