Erlent

Mun óska eftir nýrri þjóðar­kvæða­greiðslu um sjálf­stæði

Atli Ísleifsson skrifar
Pere Aragonés var í dag kjörinn forseti héraðsstjórnar Katalóníu.
Pere Aragonés var í dag kjörinn forseti héraðsstjórnar Katalóníu. EPA/ALBERTO ESTEVEZ

Pere Aragonés var í dag kjörinn forseti héraðsstjórnar Katalóníu af héraðsþinginu.

Hinn 38 ára Aragonés styðjur sjálfstæði Katalóníu frá Spáni en hefur verið lýst sem hófsamari en nokkrir forverar hans í embætti. Hann hefur verið starfandi forseti héraðsstjórnar frá í september síðastliðinn.

Eftir að Aragonés tók við embættinu fyrr í dag hét hann aðskilnaðarsinnum því að hann myndi krefjast þess að fram fari ný þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði héraðsins. Spánarstjórn hefur áður lagst harkalega gegn öllum slíkum hugmyndum.

Aragonés tjáði katalónska þinginu að hann myndi leiða félagslegar og efnahagslegar umbætur í héraðinu og halda sjálfstæðisbaráttunni áfram. Sömuleiðis þurfi enn að kjást við áhrif kórónuveirufaraldursins.

Bauð fram krafta sína

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti héraðsstjórnar Katalóníu sem er nú í sjálfskipaðri útlegð í Belgíu, óskaði Aragonés til hamingju með stöðuna á Twitter fyrr í dag og sagðist jafnframt til þjónustu reiðubúinn. „Lengi lifi frjáls Katalónía,“ sagði Puigdemont.

Puigdemont flúði til Belgíu skömmu eftir að hafa lýst yfir sjálfstæði Katalóníu árið 2017 í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu sem spænskir dómstólar lýstu sem ólöglegri.

Skipun Aragonés í embætti forseta héraðsstjórnar kemur í kjölfar um þriggja mánaða stjórnarmyndunarviðræðna vinstriflokks hans, ERC, og annarra flokka sem styðja sjálfstæði Katalóníu.

Euronews segir frá því að skoðanakannanir bendi til að um helmingur Katalóna styðji sjálfstæði héraðsins, en hinn helmingurinn vilji að héraðið verði áfram hluti af Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×