Innlent

Hraunið komið yfir ný­lagðan ljós­leiðara

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Ljósleiðarinn liggur undir hrauninu við varnargarðinn.
Ljósleiðarinn liggur undir hrauninu við varnargarðinn. Egill Aðalsteinsson

Ljós­leiðari var grafinn niður fyrir framan annan varnar­garðinn á gos­stöðvunum síðasta þriðju­dag til að mæla á­hrif hraun­rennslis á ljós­leiðara. Ljóst er að ef gosið heldur mikið lengur á­fram mun hraun á endanum renna niður að Suður­stranda­vegi en áður en það næði þangað myndi það renna yfir ljós­leiðara Mílu sem hring­tengir Reykja­nesið.

Á­kveðið var því að gera til­raun við gos­stöðvarnar til að sjá hvaða á­hrif rennandi hraun hefur á ljós­leiðara sem liggur undir því. Lítil gögn eru nefni­lega til um hvernig ljós­leiðurum reiðir ef þeir verða undir hrauni. Þá er lítið vitað um hversu langt niður í jörðu áhrif hraunsins ná.

Hraunið kom síðan upp að varnar­görðunum og yfir til­rauna­ljós­leiðarann á mið­viku­daginn. Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Mílu hefur hann enn sem komið er staðist prófið og virkar sem skyldi. Hann er ekki grafinn nema 60 til 70 sentí­metra niður í jörðu, líkt og flestir ljósleiðarar. 

Mikilvæg reynsla

Litið er nú á alla fram­kvæmd varnar­garðanna við gos­stöðvarnar sem hálf­gert til­rauna­verk­efni sem skapar mikil­væga reynslu verk­fræðinga í fram­tíðinni ef búast má við fleiri gosum á Reykja­nes­skaganum og ná­lægt byggð.

Ríkis­stjórnin sam­þykkti það fyrir síðustu helgi að ráðast í verk­efnið og láta reisa tvo fjögurra metra háa varnar­garða til að aftra því að hraun færi að renna niður í Nátt­haga. Þaðan myndi það fljótt renna sína leið að Suður­stranda­vegi og er ljóst að ef hraunið nær þangað muni vegurinn skemmast. Á­kveðið var síðan á þriðju­daginn að bæta tuttugu milljónum við verk­efnið og hækka varnar­garðana upp í átta metra.

Gagn­rýni kom upp um verk­efnið í kjöl­farið og benti jarð­eðlis­fræðingurinn Páll Einars­son til að mynda á að engin leið væri að stöðva hraunið ef gosið héldi á­fram í lengri tíma.

Hörn Hrafns­dóttir, um­­­hverfis- og byggingar­­­verk­­­fræðingur hjá Verkís sem stýrir gerð varnar­­­garðanna, sagði í sam­tali við Stöð 2 í gær að þetta væri rétt hjá Páli en aðal­at­riðið væri ekki að stöðva hraunið heldur að afla mikil­vægrar þekkingar og reynslu í hvernig hægt er að tefja rennandi hraun.

„Það sem skiptir kannski megin­­­máli er að ef Reykja­nesið er vaknað og þetta getur komið upp ein­hvern tíma annars staðar seinna, þar sem eru mikil­­vægir inn­viðir, að við lærum á þetta allt saman þannig við erum þá að reyna núna og fáum ýmis­­legt svona í far­teskið fyrir næstu árin og ára­tugina kannski,“ sagði Hrönn.

Ljós­leiðara­verk­efnið er liður í þessu og mun svara spurningum manna um hvort ljós­leiðarar geti staðið af sér eld­gos sem þetta.


Tengdar fréttir

Ýttu upp neyðargörðum fram á nótt til að verjast hraunrennsli

Stíflugerðarmenn á gosstöðvunum í Fagradalsfjalli stóðu í æsispennandi kapphlaupi í gærkvöldi og fram á nótt við að ryðja upp neyðargörðum þegar hraunrennsli stefndi á eystri varnargarðinn ofan Nátthaga. Búið er að bæta við annarri jarðýtu til að hraða styrkingu varnargarðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×