Fótbolti

Enginn leik­maður frá Real í spænska hópnum fyrir EM | Laporte valinn í fyrsta skipti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sergio Ramos fær ekki tækifæri til að bæta við 180 landsleiki sína á EM í sumar.
Sergio Ramos fær ekki tækifæri til að bæta við 180 landsleiki sína á EM í sumar. Jose Breton/Getty Images

Landsliðsþjálfari Spánar, Luis Enrique, tilkynnti í dag hvaða leikmenn munu fara á Evrópumótið í knattspyrnu í sumar. Aymeric Laporte er í fyrsta sinn í hópnum en athygli vekur að enginn leikmaður Real Madrid er í hópnum.

Þó Enrique megi velja 26 leikmenn hefur hann ákveðið að taka aðeins 24 leikmenn með á mótið. Undanfarin ár hefur venjan verið að hver hópur samanstandi af þremur markvörðum og 20 útileikmönnum. 

Vegna Covid-19 var ákveðið að fjölga leikmönnum upp í 26 talsins en Enrique virðist ekki sjá tilganginn með að taka svo marga og lét 24 duga. Þjálfarinn velur þó vissulega þrjá markverði. Reikna má með að Unai Simón [Athletic Bilbao] verði í markinu og þá heldur David De Gea [Manchester United] sæti sínu þó hann sé orðinn varamarkvörður Man Utd. 

Þriðji markvörðurinn er svo Robert Sánchez [Brighton & Hove Albion]. Fær hann traustið fram yfir Kepa Arrizabalaga [Chelsea] sem er líkt og De Gea varamarkvörður í sínu liði.

Eins og áður sagði er enginn leikmaður Real Madrid í hópnum. Talið var að Sergio Ramos færi með enda verið fyrirliði Spánar - sem og Real - undanfarin misseri þó svo hann sé meiddur um þessar mundir. Þá er Dani Carvajal einnig meiddur og því ekki pláss fyrir hann í hópnum.

Marco Asensio og Isco hafa ef til vill búist við að fara allavega með á mótið en Enrique sá sér ekki fært að velja þá. 

Hópinn í heild sinni má sjá hér að neðan en það eru nokkrir hlutir sem standa upp úr.

Marcos Llorente er titlaður sem varnarmaður en hann spilaði aðallega á miðjunni hjá Spánarmeisturum Atlético Madríd í vetur. Er hann stór ástæða þess að Atl. Madríd landaði titlinum. 

Þá er Laporte í fyrsta skipti í hópnum en þessi 26 ára gamli Baski var í herbúðum Athletic Bilbao frá 2010 til 2018. Hann lék þó með öllum yngri landsliðum Frakklands en fékk aldrei tækifæri með A-landsliðinu og hefur nú ákveðið að taka slaginn með Spánverjum. Samherji hans Eric Garcia er einnig hópnum en sá hefur setið nær allt tímabilið á varamannabekk Englansmeistara Manchester City.

Það vekur einnig athygli að Adama Traoré sé í hópnum en hann hefur ekki verið upp á sitt besta með Wolverhampton Wanderers á tímabilinu. Hann var hins vegar kominn í ágætis gír undir lok tímabils og hver veit nema hann blómstri á EM í sumar.

Leikmannahópur Spánar

Markverðir: Unai Simón [Athletic Bilbao], David de Gea [Manchester United] Robert Sánchez [Brighton & Hove Albion].

Varnarmenn: José Gayà [Valencia], Jordi Alba [Barcelona], Pau Torres [Villareal], Aymeric Laporte [Manchester City], Eric Garcia [Man City], Diego Llorente [Leeds United], César Azpilicueta [Chelsea] og Marcos Llorente [Atlético Madrid].

Miðjumenn: Sergio Busquets [Barca], Rodri [Man City], Thiago [Liverpool], Koke [Atl. Madríd] og Fabian [Napoli].

Framherjar: Dani Olmo [RB Leipzig], Mikel Oyarzabal [Real Sociedad], Álvaro Morata [Juventus], Gerard Moreno [Villareal], Ferran Torres [Man City], Adama Traore [Wolves] og Pablo Sarabia [París Saint-Germain].




Fleiri fréttir

Sjá meira


×