Innlent

Skiptar skoðanir á sam­einingu fjögurra sveitar­fé­laga í Austur-Húna­vatnssýsla

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Frá Blönduósi.
Frá Blönduósi. Vilhelm Gunnarsson

Skiptar skoðanir eru á sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu. Oddviti Húnavatnshrepps segist bjartsýnn á að af sameiningu verði.

Kosið verður um sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar þann 5. júní næstkomandi.

Sveitastjórar sveitarfélaganna skipuðu samstarfsnefnd til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna og hlaut verkefnið nafnið Húnvetningur. Formaður verkefnisins er Jón Gíslason, oddviti Húnavatnshrepps.

Hvernig hefur hljóðið verið í fólki varðandi þessa mögulegu sameiningu? 

„Það eru skiptar skoðanir á því og þetta covid ástand hefur háð okkur upp á kynningarferilinn. Við höfum verið að kynna þetta mikið í gegnum netið og ekki getað haldið „live“ íbúafundi nema síðustu daga,“ sagði Jón.

Alls eru 1.365 á kjörskrá og er Jón bjartsýnn á að af sameiningunni verði.

„Ég sem formaður nefndarinnar leyfi mér ekkert annað og maður er bara bjartsýnn áður en annað kemur í ljós.“

Hann segist feginn að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélaga verði hækkaður í skrefum en til stóð að lágmarksfjöldi væri bundinn við þúsund íbúa. Nú er lagt til að það gerist árið 2026.

„Það stóð auðvitað til að setja þetta íbúalágmark og þegar við fórum af stað þá lá það í loftinu en síðan hefur því verið breytt og við erum fegin því að geta farið í þessa sameiningu á eigin forsendum en ekki af þvingunarástæðum,“ sagði Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×