Fótbolti

Maguire gæti verið með á EM eftir allt saman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Maguire á æfingu með enska landsliðinu í gær.
Maguire á æfingu með enska landsliðinu í gær. @England

Harry Maguire, miðvörður Manchester United og enska landsliðsins, hefur hafið æfingar með enska landsliðinu og gæti náð Evrópumótinu í knattspyrnu eftir allt saman.

Maguire hefur ekki spilað síðan 9. maí þegar Man United vann Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni. Miðvörðurinn öflugi fór meiddur af velli í þeim leik og var talið að EM væri í hættu.

Gareth Southgate hafði meira að segja brugðið á það ráð að undirbúa 3-4-3 leikkerfi með Luke Shaw sem hluta af þriggja manna varnarlínu fyrir leikinn gegn Króatíu á sunnudag ef Maguire myndi ekki vera klár.

 Maguire var hins vegar með á æfingu enska liðsins í gær. Ku hann hafa litið vel út og klárað æfinguna án þess að finna fyrir ökklameiðslunum.

Englandi hefur verið spáð góðu gengi á mótinu og telur íþróttatölfræðiveitan Gracenote England líklegast - ásamt Belgíu - til að vinna EM. Ljóst er að England á mun betri möguleika ef Harry Maguire er heill heilsu. 

Bæði hann og Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, hafa verið meiddir undanfarið en Henderson spilaði síðari hálfleikinn í síðasta vináttulandsleik Englands fyrir EM. 

Með þá báða innanborðs gætu Englendingar mögulega gert hið ómögulega, að koma með fótboltann heim.


EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×