Fótbolti

Í það minnsta 60.000 áhorfendur leyfðir á úrslitaleik EM

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Úrslitin munu ráðast á Wembley þann 11.júlí næstkomandi.
Úrslitin munu ráðast á Wembley þann 11.júlí næstkomandi. EPA-EFE/ANDY RAIN

Samkvæmt breskum yfirvöldum verða verða leyfðir í það minnsta 60.000 áhorfendur þegar undanúrslit og úrslit EM fara fram á Wembley í næsta mánuði. Hingað til hafa 22.500 áhorfendur verið leyfðir á þjóðarleikvang Englendinga.

Leikir Englands í D-riðli hafa farið fram á Wembley, og þá hafa 25% sætanna verið í notkun. Þessi fjölgun þýðir það að 75% af hámarksáhorfendafjölda verður á svæðinu.

Fjölgunin þýðir einnig að þetta verður mesti áhorfendafjöldi á íþróttaviðburði í Bretlandi í yfir 15 mánuði.

Aleksander Ceferin, forseti UEFa, segir þetta gleðitíðindi.

„Það eru frábærar fréttir að svona margir stuðningsmenn geti fylgst með seinustu þrem leikjum Evrópumótsins á Wembley,“ sagði Ceferin.

„Þetta mót hefur veitt fólki von um að við séum að færast nær eðlilegu lífi, og þetta er skref í þá átt.“

Eins og áður segir hafa verið leyfðir 22.500 áhorfendur á leiki Englands í riðlakeppninni, en tveir leikir fara fram á Wembley í 16-liða úrslitum. Þá munu 45.000 áhorfendur fá að mæta á völlinn.

Þeir áhorfendur sem mæta á Wembley þurfa að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf, eða sönnunn þess að þeir séu full bólusettir.

Undanúrslitin fara fram 6. og 7. júlí, en úrslitaleikurinn sjálfur fer fram sunnudaginn 11.júlí.

EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 verður einnig hægt að kaupa stakt á kr. 6.990 en fyrir viðskiptavini með aðra áskrift en ofangreindar frá Stöð 2 kostar áskriftin kr. 3.990.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×