Húsið í Glaðheimum er á fjórum hæðum. Íbúð konunnar sem varð fyrir vatnstjóni er á annarri hæð en þriðja hæðin, risið, er í eigu Óskars Arnar Haukssonar, markahæsta leikmanns KR í efstu deild í knattspyrnu frá upphafi.
Nágrannakonan á annarri hæðinni lýsti því fyrir dómi að um áramótin 2014-2015 og frá þeim tíma hafi orðið skemmdir á íbúð hennar á 2. hæð hússins. Um sé að ræða skemmdir í öllum herbergjum íbúðarinnar vegna leka. Skemmdirnar séu á loftum, veggjum, gólfefnum og innréttingum.
Höfðaði mál vegna hættu á fyrningu
Þá hafi orðið tjón þar á innanstokksmunum og á lausafé vegna raka og hafi íbúðin verið óíbúðarhæf þótt konan hafi búið þar. Ekki hafi verið ráðist í lagfæringar á húsinu fyrr en sumarið 2018. Hafi verktakar sem unnið hafi að viðgerðunum talið að mögulegt yrði að meta tjón á íbúð konunnar í lok árs 2018.
Húseigendur hafi hins vegar ekki náð saman um mat eða matsmann fyrr en í janúar 2019, og þá með aðstoð Húseigendafélagsins. Sá matsmaður hafi mætt til að meta tjón í íbúð stefnanda og ekki talið tímabært að meta tjónið þar sem enn væri raki í hluta skemmdanna. Finna þyrfti orsakir leka, lagfæra þá, og þá fyrst væri hægt að meta tjónið.
Nágrannar konunnar vildu ekki falla frá fyrningarfresti og til að tryggja að kröfur konunnar fyrndust ekki taldi hún nauðsynlegt að höfða mál.
Sögðust ekki hafa sýnt af sér vanrækslu
Allir voru sammála um að mat þyrfti að fara fram á tjóni á íbúð konunnar. Það mat lá fyrir í júní 2020 og var enginn ágreiningur um niðurstöðuna. Engu að síður náðist ekki sátt í málinu. Því fór það fyrir dóm þar sem nágrannar konunnar héldu uppi vörnum á þeim grundvelli að krafa konunnar væri fyrnd, þau hefðu ekki sýnt af sér vanrækslu auk þess sem ýmsar upplýsingar frá konunni um lekaskemmdir væru of seint fram komnar.
Dómurinn tók að öllu leyti til greina matsgerð dómkvadds matmanns, bæði varðandi orsakir og metið tjón. Þar segir að rakaskemmdir í borðstofu, stofu og í eldhúsi stafi frá leka við þakdúk á þaksvölum á þriðju hæð sem tilheyri sameign. Talað hafi verið um leka allt frá árinu 2015 en ómögulegt að staðsetja slíkt fullkomlega í tíma.
Enn greinist þó raki í borðstofu í íbúð konunnar sem útskýri frásögn um frekari leka árið 2019. Rakaskemmdir í eldhúsi að vegg að baðherbergi í íbúð konunnar virðist matsmanni sem líklegast sé að hafi stafað frá baðkari sem hafi áður verið í séreign Óskars Arnar á þriðju hæð. Leki í herbergi í íbúð stefnanda hafi líklegast borist inn um gluggakarma sem sé ekki óeðlilegt í þetta gömlu húsi.
Óskar Örn greiðir 200 þúsund í viðbót vegna baðkarsins
Rakaskemmdir á útvegg á hjónaherbergi hafi vísast stafað frá leka með gluggum á þriðju hæð eða steypuskilum við loftplötu. Gert hafi verið við við húsið að utan 2018 og þá mögulega verið komist fyrir leka utan frá. Ekki var hægt að staðfesta að vatn hefði farið undir parket í stofu þrátt fyrir ummerki um raka á veggjum en mygla greindist í því og í lími undir gólfdúk í hjónaherbergi.
Krafa konunnar um bætur voru upp á rúmlega 1,4 milljónir króna en voru leiðréttar í rúmlega 1,3 milljónir króna. Þar sem megnið af tjónskostnaði stafaði samkvæmt matsgerð frá sameign hússins féll stærstur hluti kostnaðarins, um 1,1 milljón króna, á alla íbúana. Hlutur Óskars Arnar vegna lekans frá baðkarinu var metinn á 200 þúsund krónur.
Dómurinn taldi ekki hafa tekist að sýna fram á að kröfur konunnar hafi verið fyrndar þegar málinu var stefnt fyrir dóm. Þá voru nágrannar konunnar dæmdir til að greiða 870 þúsund krónur í málskostnað.