„Við höfum ekki haldið nákvæmar mælingar á vatnsmagni í ánni lengi þannig ég get ekki fullyrt um hvort það hafi einhvern tíma verið meira í henni,“ segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku, sem er með tvær virkjanir í Glerá.
Þetta myndband var tekið við Glerárstíflu í gær:
„En það er búið að bætast verulega í vatnsmagnið hérna bæði í gærkvöldi og í dag og ég held að þetta séu án efa mestu svona vatnavextirnir sem hafa orðið vegna sumarleysinga í örugglega hundrað ár eða eitthvað,“ segir hann.
Glerá rennur í gegn um Akureyrarbæ og segir Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri að vatnavextirnir sjáist mjög greinilega og séu óvenjumiklir. Hún segir þó enga hættu á að hún flæði inn á götur bæjarins enda eru varnargarðar við bakka hennar sem varna því.
Vextirnir skýrast af því hve kalt var á svæðinu framan af áður en skyndileg hlýindin skullu á. „Það var mikill snjór í fjöllunum í vetur og hann var svo ekkert farinn að bráðna af viti í maí. Það var frekar að það bætti eitthvað örlítið í hann þá,“ segir sérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Flæddi inn á hluta tjaldsvæðisins
Nú bráðnar allur snjórinn í fjöllum á svæðinu í einu með þeim afleiðingum að árnar fyrir norðan vaxa mikið. Þær helstu eru Eyjafjarðará, Glerá og Fnjóská.
Við Fnjóská er tjaldsvæðið Vaglaskógur en í dag flæddi áin yfir bakka sína og inn á hluta tjaldsvæðisins.
Starfsmaður þess segir í samtali við Vísi að engar skemmdir hafi orðið á tjöldum eða hjólhýsum en búið sé að loka einu af fimm svæðum tjaldsvæðisins.
Fleiri myndir af svæðinu: