Enska landsliðið komst í átta liða úrslit á Evrópumótinu í knattspyrnu eftir 2-0 sigur á Þjóðverjum á þriðjudaginn. Þetta var langþráður sigur hjá þeim ensku enda sá fyrsti á Þjóðverjum á stórmóti í 55 ár.
Harry Kane fór langt með að innsigla sigurinn þegar hann kom enska landsliðinu í 2-0 á 86. mínútu.
Rétt áður en markið kom þá var landsliðsþjálfarinn Gareth Southgate búinn að ákveða að setja Jordan Henderson inn á völlinn síðustu mínúturnar. Henderson stóð því á hliðarlínunni tilbúinn að koma inn til að landa sigri og sæti í átta liða úrslitunum.
Myndavélin var á Henderson alla sókn enska liðsins sem endaði með stoðsendingu Jack Grealish og skallamarki Kane.
Henderson rekur sína menn áfram í sókninni og fagnar svo markinu innilega. Hann endar svo á því að faðma Southgate landsliðsþjálfara.
Hér fyrir neðan má sjá myndbandið sem UEFA setti inn á EM Twittersíðu sína.
Henderson komst loksins inn á völlinn stuttu síðar fyrir Declan Rice og átti þátt í því að landa þessum sögulega sigri.
Henderson hefur fengið hrós fyrir frábært hugarfari hjá leikmanni sem hefur þurft að sætta sig við að dúsa á varamannabekknum alla keppnina. Þarna sýnir hann leiðtogahæfileikana sína sem Liverpool stuðningsmenn elska hann fyrir.
EM 2020 verður sýnt á Stöð 2 Sport EM 2020 sem er hluti af Sportpakkanum, Stóra pakkanum og Risapakkanum. EM 2020 er einnig hægt að kaupa stakt á lækkuðu verði frá og með 24. júní á kr. 3.990.