Íslenski boltinn

Ekkert lið í Pepsi Max deildinni með færri stig en FH frá 20. maí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Matthías Vilhjálmsson og félagar í FH eru á hraðri leið niður töfluna og enda í fallbaráttu með sama áframhaldi.
Matthías Vilhjálmsson og félagar í FH eru á hraðri leið niður töfluna og enda í fallbaráttu með sama áframhaldi. Vísir/Bára

FH-ingar voru á toppnum eftir sigur á HK í fjórðu umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta. Síðan hafa þeir aðeins náð í samtals tvö stig á 45 dögum. Ekkert lið hefur fengið færri stig á þessum tíma.

FH hefur ekki náð að fagna sigri í fyrstu tveimur deildarleikjum sínum undir stjórn Ólafs Jóhannessonar. Það þýðir að liðið hefur spilað sjö leiki í röð í Pepsi Max deildinni án þess að vinna leik.

Það er því ekkert skrýtið að Ólafur þjálfari sé farinn að tala um að liðið sitt sé að dragast niður í fallbaráttuna í deildinni.

Síðasti sigur FH kom í Kórnum 17. maí síðastliðinn þegar Hafnarfjarðarliðið vann 3-1 sigur á HK. Einu stig FH-inga síðan þá komu í jafnteflisleikjum á móti Stjörnunni 16. júní og á móti KA 27. júní.

Leikirnir á móti KR (0-2), Leikni (1-2), Víkingi (0-2), Breiðabliki (0-4) og Val (0-2) hafa allir tapast.

FH vann sigur á 2. deildarliði Njarðvíkur í bikarleik á dögunum en þegar kemur að deildinni þá hefur liðið ekki unnið í meira en einn og hálfan mánuð.

FH vann þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og sat í toppætinu eftir leiki fjórðu umferðar 17. maí. KA, Víkingur og Valur voru reyndar öll með tíu stig eins og FH en FH liðið var með bestu markatöluna.

FH var með 11 mörk í fjórum leikjum en hefur síðan aðeins skorað þrjú mörk samanlagt í sjö leikjum og hefur á sama tíma fengið á sig fjórtán mörk.

Valsmenn eru á toppnum í deildinni og hafa fengið fimmtán fleiri stig en FH á þessu tíma. Valsliðið hefur reyndar leikið einum leik fleira en FH en munurinn á stigasöfnun liðanna er samt ótrúlegur.

Stig í húsi hjá Pepsi Max deildarliðum karla frá 20. maí síðastliðnum:

  • 1. Valur 17 stig
  • 2. Breiðablik 15 stig
  • 3. KR 11 stig
  • 3. Stjarnan 11 stig
  • 5. Fylkir 9 stig
  • 5. Víkingur R. 9 stig
  • 7. KA 7 stig
  • 7. Keflavík 7 stig
  • 9. Leiknir R. 6 stig
  • 10. HK 4 stig
  • 10. ÍA 4 stig
  • 12. FH 2 stig

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×