Fótbolti

Gri­ezmann til sölu ef Messi verður á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stefnir allt í að þessir tveir muni ekki fagna saman á næstu leiktíð.
Stefnir allt í að þessir tveir muni ekki fagna saman á næstu leiktíð. Manuel Queimadelos/Getty Images

Spænska knattspyrnuliðið Barcelona mun setja Antoine Griezmann á sölulista ef Lionel Messi ákveður að vera áfram í Katalóníu og semur við félagið á nýjan leik.

Lionel Messi er eins og staðan er í dag samningslaus en það virðist sem hann færist alltaf nær því að semja við sitt fyrrum félag, Barcelona. Það er ljóst að Messi mun ekki fá jafn himinháan samning og hann var á hjá félaginu áður.

Argentínumaðurinn hefur sjálfur sagt að hann vilji vera áfram hjá Barcelona ef félagið er í stöðu til að berjast um titla og til þess þarf hann að lækka í launum.

Fjárhagsstaða Barcelona er hins vegar það slæm að félagið mun setja hinn þrítuga Griezmann á sölulista ef Messi semur upp á nýtt. Franski landsliðsframherjinn gekk í raðir Börsunga sumarið 2019 á litlar 120 milljónir evra.

Hann hefur ekki staðið undir væntingum og var talið að Barcelona myndi hlusta á tilboð í kappann í sumar. Ef heimildir spænska miðilsins AS eru réttar þá stefnir allt í að það verði raunin.

Ljóst er að miklar breytingar verða á liði Barcelona í sumar. Eric Garcia, Memphis Depay, Sergio Agüero og Emerson Royal. Börsungar stefna einnig á að losa sig við fjölda leikmanna, var bakvörðurinn Junior Firpo til að mynda seldur fyrr í dag til Leeds United. 

Miralem Pjanic, Samuel Umtiti og Philippe Coutinho eru svo allir á sölulistanum. Mun Barcelona hlusta á lánstilboð í Coutinho, allt til að lækka launkostnað liðsins. Nú er svo ljóst að Griezmann mun einnig fara á sölulistann ef Messi ákveður að vera áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×