Fótbolti

Alfons lagði upp í tapi í Meistaradeildinni

Valur Páll Eiríksson skrifar
Alfons lagði upp mark í svekkjandi tapi.
Alfons lagði upp mark í svekkjandi tapi. Getty Images/Boris Streubel

Alfons Sampsted og félagar hans í Bodö/Glimt þurftu að þola 3-2 tap á heimavelli fyrir Póllandsmeisturum Legia Varsjá í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld. Alfons lagði upp í leiknum.

Það fór erfiðlega af stað hjá Noregsmeisturunum í kvöld þar sem Brasilíumaðurinn Luquinhas skoraði fyrir Legia eftir aðeins tveggja mínútna leik. Mahir Emereli tvöfaldaði þá forskot pólska liðsins á 41. mínútu en Erik Botheim skoraði eftir stoðsendingu íslenska landsliðsmannsins Alfons Sampsted í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Emereli skoraði aftur á móti sitt annað mark er hann kom Legia 3-1 yfir eftir stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik en varamaðurinn Pernambuco minnkaði muninn á 78. mínútu fyrir Bodö/Glimt. Annar varamaður, Morten Konradsen, fékk svo að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt skömmu síðar og luku leikmenn norska liðsins því leik einum færri.

Alfons spilaði allan leikinn fyrir Bodö/Glimt sem þarf að vinna upp forskot Legia í síðari leik liðanna í Póllandi eftir viku.

Fari svo að Bodö/Glimt tapi einvíginu við Legia mun norska liðið mæta tapliðinu úr einvígi Dinamo Zagreb og Vals. Það má því vel vera að Alfons mæti á Hlíðarenda, tapi bæði Valur og Bodö/Glimt sínum einvígjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×