Þetta kemur fram í hringrásarfærslu staðarins á Instagram.
„Við hvetjum alla okkar gesti til þess að fara í sýnatöku þar sem smitið er m.a. rakið inn um okkar dyr.“
Eins og greint var frá fyrr í dag greindust tveir bólusettir einstaklingar með kórónuveiruna í gær og voru þeir báðir utan sóttkvíar við greiningu. Einhver hópur fólks hefur verið sendur í sóttkví vegna smitanna, en endanleg stærð þeirra sem þurfa í sóttkví liggur ekki fyrir.
Mætti á klúbbinn bæði á föstudag og laugardag
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannvarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir í tilkynningu að aðilinn sem smitaðist á Bankastræti Club hafi bæði mætt þangað á föstudag og laugardag.
„Við hvetjum alla þá sem komu inn á skemmtistaðinn um helgina að vera vakandi og fylgjast vel með einkennum vegna COVID-19. Ef einkenna verður vart - fara beint í sýnatöku. Hana er hægt að panta inn á Heilsuveru,“ segir Hjördís.
Þá eru landsmenn hvattir til að setja upp Rakningarappið sem hjálpar rakningarteyminu að rekja smit þegar þau koma upp. Rakningarappið er í lykilhlutverki núna þegar samkomutakmarkanir eru engar á Íslandi, segir Hjördís.
Ekki náðist í Birgittu Líf Björnsdóttur, eiganda Bankastræti Club, við vinnslu fréttarinnar. Fjöldi fólks mætti á staðinn um helgina. Þeirra á meðal stjörnukokkurinn Gordon Ramsey.
