Skálholt og Skálholtsstaður er einn af þekktustu ferðamannastöðum á Suðurlandi enda hluti af Gullna hringnum svonefnda. Ferðamenn hafa verið mjög duglegir að heimsækja staðinn í sumar, ekki síst útlendingar sem vilja fá að vita allt um þennan merkilega stað.
„Þetta var höfuðstaður Íslands í 750 ár þannig að þú getur ímyndað þér hvað margt hefur gerst hér og margir gengið hérna um garða,“ segir Herdís Friðriksdóttir framkvæmdastjóri Skálholtsstaðar og bætir við;
„Svo er Skálholtskirkja sjálf í rauninni geimsteinn gullna hringsins. Það eru hérna listaverk, altaristaflan hennar Nínu til dæmis og gluggarnir hennar Gerðar og það er svo ótrúlega fallegt og gaman að sjá þegar sólin skín innan um gluggana og þegar að Nína og Gerður tala saman þegar gluggarnir varpa ljósi á Jesú á altaristöflunni.“

Herdís segir að nokkur hundruð manns komi í Skálholt á hverjum degi yfir sumartímann og oft miklu fleiri um helgar. Bandaríkjamenn og Evrópubúar séu sérstaklega áberandi. Á virkum dögum er boðið upp á ókeypis leiðsögn um staðinn.
Herdís segir Íslendinga líka duglega að heimsækja staðinn en margir segi:
„Hingað hef ég aldrei komið eða, hingað hef ég ekki komið síðan ég fermdist. Við viljum endilega fá fleiri vegna þess að þetta er svo merkilegur staður og svo mikill hjartastaður fyrir Íslendinga. Ég vil bara segja fólki að það er allt gott veður í uppsveitunum og allir eru hjartanlega velkomnir í Skálholt,“ segir Herdís.

Á heimasíðu Skálholts má finna mikið af upplýsing um starfsemina á staðnum.