Sport

Mátti ekki taka mömmu sína með sem aðstoðarkonu og hætti við þátttöku á ÓL

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Becca Meyers þótti líkleg til afreka á Ólympíumóti fatlaðra.
Becca Meyers þótti líkleg til afreka á Ólympíumóti fatlaðra. getty/Stacy Revere

Sundkonan Becca Meyers, sem er bæði blind og heyrnarlaus, hefur hætt við þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra eftir að henni var meinað að taka móður sína, sem er aðstoðarkona hennar, með til Tókýó.

Móðir Meyers er persónuleg aðstoðarkona hennar og hefur verið með henni í því hlutverki á öllum mótum síðan 2017 en vegna sóttvarnareglna leyfði íþrótta- og ólympíusamband fatlaðra í Bandaríkjunum henni ekki að fara með til Tókýó.

„Ég er reið, vonsvikin og umfram allt leið að geta ekki keppt fyrir hönd þjóðar minnar,“ skrifaði Meyers á Twitter þegar hún greindi frá því að hún hefði hætt við að keppa á Ólympíumóti fatlaðra.

Bandaríkin senda 33 sundmenn til keppni á Ólympíumót fatlaðra en með þeim er aðeins einn aðstoðarmaður. Meyers var tjáð að þessi eini aðstoðarmaður myndi duga og hún þyrfti ekki sinn eigin aðstoðarmann.

Hún furðar sig á því að árið 2021 þurfi hún, sem fötluð íþróttakona, enn að berjast fyrir réttindum sínum og vonast til að barátta sín verði til þess að annað fatlað íþróttafólk þurfi ekki að ganga í gegnum það sama í framtíðinni.

Meyers, sem er 26 ára, vann til þrennra gullverðlauna á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó fyrir fimm árum. Hún hefur alls unnið til sex verðlauna á Ólympíumóti fatlaðra á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×