Skoðun

Gleðilegan þolmarkadag!

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Í dag er hinn árlegi þolmarkadagur jarðar (Earth Overshoot Day) sem þýðir að nú hefur mannkynið þurrausið þær auðlindir sem jörðin nær að endurnýja á þessu ári. Á slíkum degi er vel við hæfi að benda á þrennt:

  1. Við Íslendingar erum í öðru sæti yfir þær Evrópuþjóðir sem losa mestar gróðurhúsalofttegundir miðað við höfðatölu og með eitt stærsta neysludrifna kolefnisfótspor heims.
  2. Ísland er eftirbátur annarra Norðurlanda í loftslagsmálum, ríkisstjórn Íslands styðst við þokukennd loftslagsmarkmið, undanskilur stór svið samfélagsins frá kröfum um alvöru samdrátt í losun, hefur ekki lagt fram trúverðuga áætlun um hvernig Ísland geti orðið kolefnishlutlaust og óháð jarðefnaeldsneyti á næstu tveimur áratugum og treystir sér ekki einu sinni til að banna olíuleit í íslenskri lögsögu.
  3. Þetta þarf ekki að vera svona. Við erum rík þjóð, búum að gnótt endurnýjanlegra auðlinda og tækifærin til sjálfbærrar atvinnuuppbyggingar eru gríðarleg. Flestir Íslendingar eru meðvitaðir um loftslagsvandann og vilja gjarnan taka þátt í að sporna gegn honum, ganga betur um gjafir jarðar og seinka þannig þolmarkadeginum.

Það sem helst vantar er pólitísk forysta á landsvísu um alvöru aðgerðir í loftslagsmálum. Lykillinn að því er að mynduð verði ný og framsækin ríkisstjórn í haust skipuð stjórnmálafólki sem þorir og vill.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi Alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×