Sport

Heimsmet féll og Ítalir stálu senunni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Mögnuð stund þegar ítölsku gullverðlaunahafarnir mættust í endamarkinu.
Mögnuð stund þegar ítölsku gullverðlaunahafarnir mættust í endamarkinu. vísir/Getty

Mikið um dýrðir á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag þegar nokkrar greinar í frjálsum íþróttum kláruðust.

Venesúelakonan Yulimar Rojas kom, sá og sigraði með glæsibrag í þrístökki. Sjötta og síðasta stökkið hennar var best þar sem hún stökk 15,67 metra og eignaði sér þar með heimsmet í greininni.

Rojas bætti met Inessu Krevets frá árinu 1995 um 17 sentimetra.

Í hástökki karla sættust þeir Gianmarco Tamberi, frá Ítalíu, og Mutaz Essa Barshim, frá Katar, á að deila efsta sætinu og hljóta þeir því báðir gullmedalíu.

Þeir höfðu báðir náð að stökkva 2,37 en tókst ekki að komast yfir 2,39 metra. Í stað þess að fara í bráðabana um gullið höfðu þeir val um að deila efsta sætinu, sem og þeir gerðu. Myndband af þessu magnaða augnabliki má sjá hér að neðan.

Síðasta greinin var 100 metra spretthlaup sem er alltaf beðið með mikilli eftirvæntingu á Ólympíuleikum.

Þar reyndist Lamont Marcell Jacobs sneggstur en hann kom í mark á 9,80 sekúndum og tryggði Ítölum sína fyrstu medalíu í greininni á Ólympíuleikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×