Íslenski boltinn

Fram og Grótta með sigra í Lengjudeildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grótta er í sjötta sæti Lengjudeildarinnar.
Grótta er í sjötta sæti Lengjudeildarinnar. Vísir/Haraldur

Fram og Grótta unnu góða sigra í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Framarar unnu 2-0 heimasigur gegn tíu leikmönnum Fjölnis og Grótta vann 2-1 þegar að Selfyssingar kíktu í heimsókn.

Þórir Guðjónsson kom Fram yfir gegn Fjölni eftir 35 mínútna leik og staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.

Valdimar Ingi Jónsson nældi sér í sitt annað gula spjald í liði Fjölnismanna þegar um fimm mínútur voru til leiksloka og þeir þurftu því að klára leikinn manni færri.

Heimamenn nýttu sér liðsmuninn og Guðmundur Magnússon tryggði 2-0 sigur á 91. mínútu. Fram er því enn taplaust á toppnum með 38 stig eftir 14 leiki, níu stigum fyrir ofan næsta lið.

Fjölnismenn eru enn í þriðja sæti Lengjudeildarinnar með 23 stig og þurfa því að fara að spýta í lófana ef þeir ætla sér að vera með í baráttunni um sæti í deild þeirra bestu.

Pétur Árnason kom Gróttumönnum yfir gegn Selfyssingum á 34. mínútu í hinum leik kvöldsins. Staðan í hálfleik var því 1-0, en Arnar Helgason tvöfaldaði forystu heimamanna snemma í seinni hálfleik.

Kenan Turudija minnkaði muninn á 61. mínútu, en nær komust Selfyssingar ekki.

Grótta er í sjötta sæti deildarinnar með 20 stig, en Selfyssingar eru í harðri fallbaráttu í tíunda sæti með 12 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×