Sport

Bandaríkin hlutu flest verðlaun á Ólympíuleikunum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Kvennalandslið Bandaríkjanna í körfubolta var á meðal þriggja liða frá landinu sem hlutu gullverðlaun í dag.
Kvennalandslið Bandaríkjanna í körfubolta var á meðal þriggja liða frá landinu sem hlutu gullverðlaun í dag. Abbie Parr/Getty Images

Ólympíuleikunum í Tókýó lauk í dag. Bandaríkin hlutu flest gullverðlaun á leikunum auk þess að fá flest verðlaun í heild.

Kína hefur leitt keppni þjóða um flest gullverðlaun frá upphafi leikanna en það breyttist á lokadeginum í dag. Bandaríkin fögnuðu sigri í omnium hjólreiðum kvenna, körfubolta kvenna og blaki kvenna og hlutu því þrenn gullverðlaun á lokadegi.

Kínverjar hlutu engin gullverðlaun og fóru Bandaríkin naumlega upp fyrir Kína í verðlaunakeppninni. Bandaríkin fengu 39 gull gegn 38 gullverðlaunum Kínverja. Heimamenn í Japan hlutu 27 gull, Bretland 22 og Rússland 20 gull.

Bandaríkin hlutu langflest verðlaun í heildina, alls 113 gull, silfur eða bronsverðlaun. Kína var næst með 88 verðlaun.

Noregur hlaut flest gull af Norðurlandaþjóðunum, fjögur talsins, en Norðmenn fengu alls átta verðlaun á leikunum. Danmörk fékk flest verðlaun Norðurlandaþjóðanna, ellefu alls, þar af þrjú gull. Svíþjóð hlaut níu verðlaun, þrjú gull og sex silfur, en Finnland fékk alls tvö bronsverðlaun.

Hér má sjá heildarlista yfir verðlaun á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×