Lífið

Geir í Ó­svör ó­vænt orðinn and­lit sardínu­fram­leiðanda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Hér má sjá Geir á sardínudósinni. Ef vel er að gáð sést að skeggið er sett á hann með stafrænum hætti.
Hér má sjá Geir á sardínudósinni. Ef vel er að gáð sést að skeggið er sett á hann með stafrænum hætti. Aðsend

Geir Guðmundsson, sem eitt sinn var safnvörður í Ósvör í Bolungarvík, virðist vera orðinn að andliti sardínuframleiðanda í Svíþjóð. Fjölskylda Geirs hafði ekki hugmynd um að mynd af honum væri utan á sænskum sardínudósum, en framleiðandanum virðist hafa þótt vanta skegg á Geir.

Geir, sem lést árið 2018, var um tíma safnvörður í Ósvör, sem er verbúð og sjóminjasafn austast við Bolungarvík og átti hann stóran hlut í uppbyggingu safnsins á sínum tíma. Í hlutverki safnvarðar var Geir oftar en ekki klæddur skinnklæðum á borð við þau sem sjómenn fyrri alda klæddust hér á landi og fræddi gesti safnsins um söguna og það sem fyrir augu bar.

Á sardínudósinni er Geir einmitt í slíkum klæðum, þó eitthvað sé hann breyttur frá tíma sínum í Ósvör. Sardínuframleiðandanum virðist nefnilega hafa þótt vanta skegg á hann og bætti úr því með myndvinnsluforriti.

Hér má sjá Geir í fullum skrúða og skegglausan, eins og hann var ávallt.Aðsend

Skeggið blekkir engan

Í samtali við Vísi segir Sólrún, dóttir Geirs, að fyrrverandi nágrannakona hennar og foreldra hennar í Bolungarvík hafi bent henni á að faðir hennar væri nú andlit sardínumerkis í Svíþjóð, nefnilega Sardinmästarens. Hún hafi fyrir algera tilviljun rekist á dósina úti í búð.

„Þar sá hún eitthvað kunnuglegt andlit og fór að velta fyrir sér hvort þetta væri ekki gamli nágranninn. Hún sendi mömmu sinni sem býr í Bolungarvík þetta. Hún kom í heimsókn til mömmu í dag og sýndi henni þetta. Við þekktum auðvitað myndina og það er augljóst að þetta er sá gamli,“ segir Sólrún, sem telur skegginu heldur viðvaningslega bætt á Geir.

Sólrún segir að flestir safnverðir í Ósvör á eftir föður hennar hafi verið með skegg.

„En pabbi var aldrei með skegg. Mamma vildi ekki að hann safnaði skeggi þannig að það var bara gengið frá því í upphafi þeirra sambands og hann auðvitað hlýddi því.“

Sólrún segist þrátt fyrir allt hafa húmor fyrir málinu og gerir ekki ráð fyrir því að setja sig sérstaklega í samband við sardínufyrirtækið vegna þess, en ef nafn sardínuframleiðandans er slegið inn í leitarvél kemur upp fjöldi mynda af mismunandi sardínudósum, prýddum skeggjuðu andliti Geirs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.