Nýr þjóðarpúls Gallup, sem var gerður í seinni hluta júlí, sýnir að 30 prósent landsmanna óttist nú mikið að smitast af Covid-19. Það voru ekki nema 12 prósent sem lýstu sömu áhyggjum þegar eins könnun var gerð í fyrri hluta júlí.

Meira en helmingur landsmanna segist hafa miklar áhyggjur af heilsufarslegum áhrifum faraldursins á Íslandi miðað við þrjátíu prósent í byrjun júlí. Þessar áhyggjur hafa ekki mælst meiri síðan áður en stærstur hluti þjóðarinnar var orðinn bólusettur.

Í könnun Gallup kemur einnig fram að fjórðungur landsmanna finni nú almennt fyrir miklum kvíða vegna Covid-19, samanborið við rúm ellefu prósent í síðustu könnun.

Vonbrigði með bóluefnin juku á kvíðann
Fyrir því finna sálfræðingar landsins vel en biðlistar hjá Kvíðameðferðarstöðinni hafa aldrei verið lengri og má fólk sem vill sækja sér sálfræðiaðstoðar þar búast við að þurfa að bíða eftir lausum tíma í fjórar til fimm vikur.
Vísir ræddi við Tómas Pál Þorvaldsson sálfræðing hjá Kvíðameðferðarstöðinni sem má sjá í heild sinni hér að neðan.
Hann segist hafa fundið vel fyrir verri andlegri líðan landsmanna. Hún komi greinilega fram í aukinni aðsókn í sálfræðiaðstoð vegna kvíða og annarra andlegra kvilla síðustu mánuði.
„Með aukinni óvissu þá kemur meiri kvíði. Það er svona næstum því samasemmerki þarna á milli. Og kannski svona í þessari nýjustu bylgju þegar við erum að sjá einmitt að bóluefnin eru ekki alveg að gera það sem við vildum og svona að þá kemur mikil óvissa,“ segir Tómas Páll.
„Og fólk sér þá kannski ekki alveg hvenær þetta mun allt leysast og verða betra. Og með meiri óvissu eins og í þessari nýjustu bylgju þá kemur oft meiri kvíði og meiri tilfinningar.“