Fótbolti

Guð­rún talin van­metnasti leik­maður sænsku úr­vals­deildarinnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðrún í leik með Djurgården.
Guðrún í leik með Djurgården. Dif.Se

Íslenska landsliðskonan Guðrún Arnardóttir var á dögunum valin vatnmetnasti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Hún skipti yfir í topplið Rosengård á dögunum til að fylla skarð Glódísar Perlu Viggósdóttur.

Damallsvenskan Nyheter er Twitter-síða sem flytur eingöngu fréttir af sænsku úrvalsdeildinni. Á dögunum tók miðillinn saman 10 vanmetnustu leikmenn deildarinnar og þar var miðvörðurinn frá Íslandi efst á lista.

Guðrún er 26 ára gömul og á að baka 11 A-landsleiki sem og 31 leik fyrir yngri landslið Íslands. Hún hélt út í atvinnumennsku 2019 er hún samdi við Djurgården. Liðið hefur barist um að halda sæti sínu í deildinni og getur að miklu leyti þakkað frammistöðum Guðrúnar fyrir það.

Nú er hún komin í Rosengård þar sem hún mun berjast um titla. Það er eitthvað sem Guðrún hefur lengi stefnt að og er hún spennt að hjálpa Rosengård að berjast um þá titla sem eru í boði.

„Íslenska landsliðskonan er mjög vanmetin. Hún hefur allt sem miðvörður þarf að hafa: Líkamlega sterk, staðsetur sig vel, góð í loftinu og góð að stýra samherjum sínum,“ segir í umsögn miðilsins um Guðrúnu.

Rosengård trónir á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar með 32 stig að loknum 12 leikjum. Liðið hefur unnið tíu og gert tvö jafntefli. Þá hefur liðið aðeins fengið á sig tvö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×