„Það er ekki búið að ákveða það endanlega, en einhver rúmor hefur orðið til og einhver samtöl, en þetta er „premature“ sem þessu er slegið upp,“ segir Jakob Frímann í samtali við Vísi.
Þar vísar hann til fréttar Austurfréttar, sem fyrst greindi frá því að Jakob myndi leiða lista flokksins í kjördæminu.
En það er þó eitthvað til í þessu?
„Þetta hefur verið rætt en þetta er ekki endanlegt,“ segir Jakob Frímann við Vísi. „Það er ýmislegt skrafað og spjallað en það á eftir að taka endanlega ákvörðun hvað verður ef eitthvað, þannig að allt annað er bara spekúlasjón.“
Jakob Frímann hefur löngum haft annan fótinn á Austurlandi, meðal annars við uppbyggingu í ferðaþjónustu í Lóni nærri Höfn í Hornafirði. Þá hefur hann áður verið varaþingmaður fyrir Samfylkinguna en yfirgaf flokkinn árið 2007 og fór í framboð fyrir Íslandshreyfinguna.