Þetta staðfestir Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu, við fréttastofu, en mbl greindi fyrst frá málinu. Sigurjón segir í samtali við Vísi að þrír ferðamannanna séu við ágæta heilsu, einn hafi verið lagður inn á legudeild Landspítala og einn hafi þurft á gjörgæsluinnlögn að halda. Ferðamennirnir eru á aldursbilinu 60 til 80 ára. Ferðamennirnir eru allir bólusettir.
Líkt og greint var frá í gær hafa minnst 30 ísraelskir ferðamenn sem staddir eru hér á landi greinst með kórónuveiruna. Aðspurður hvort búast megi við að fleiri úr þeim hópi verði fluttir heim segist Sigurjón allt eins eiga von á því, þar sem ísraelsk stjórnvöld hafi brugðist vel við beiðni um að koma og sækja þá ferðamenn sem nú á að flytja heim.
Flugvélarnar hálfgerðar gjörgæslustofur
Sigurjón segir vélina sem komin er til að sækja ferðamennina einkar vel búna, og því öruggt að flytja ferðamennina heim þrátt fyrir mikil veikindi hjá sumum þeirra.
„Það er metið bæði af læknum hér og læknum sem koma og sækja þá. Þetta eru sérstakar sjúkravélar sem eru nú orðnar hálfgerðar gjörgæslustofur og eru búnar mjög fullkomnum tækjum. Hvert tilfelli fyrir sig er bara metið. Þeir áttu að fara sex í dag, en svo var einn sjúklingur sem þeim fannst vera of veikur til að fara með,“ segir Sigurjón.
Því verði beðið með að flytja þann sjúkling aftur til Ísraels.
„Þeir vilja bara taka einn svona mikið veikan og taka svo minna veika sem þurfa minni þjónustu og aðhlynningu um borð, til þess að hafa þetta sem öruggast og geta unnið þetta vel,“ segir Sigurjón.