Fótbolti

Mínútu þögn á Anfield um helgina og 97. fórnarlambs Hillsborough minnst

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stuðningsmenn Liverpool munu nú minnast 97 fórnarlamba Hillsborough-slyssins í stað 96.
Stuðningsmenn Liverpool munu nú minnast 97 fórnarlamba Hillsborough-slyssins í stað 96. Simon Stacpoole/Offside/Getty Images

Fjölmargir sjálfboðaliðar hafa lagt hönd á plóg í aðdraganda minningarathafnar vegna nýlegs fráfalls Andrew Devine, stuðningsmanns Liverpool, sem varð sá 97. til að láta lífið vegna Hillsborough-slyssins árið 1989. Hans, auk hinna 96 sem létu lífið vegna slyssins, verður minnst fyrir fyrsta heimaleik Liverpool gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

Andrew Devine lést í sumar, 55 ára að aldri, en hann slasaðist alvarlega á Hillsborough-vellinum í Sheffield þar sem undanúrslitaleikur Liverpool og Nottingham Forest fór fram 15. apríl 1989.

Hann var sá 97. til að láta lífið vegna slyssins en Liverpool hefur árlega minnst hinna 96 stuðningsmannana og borið töluna 96 á treyjum félagsins. Stuðningsmönnum var upphaflega kennt um slysið en árið 2016 sögðu breskir dómstólar vanrækslu lögreglumanna og sjúkraflutningamanna vera um að kenna.

Liverpool sendi frá sér tilkynningu í vikunni þar sem greint var frá því að fjölmargir sjálfboðaliðar hafi lagt sitt að mörkum til að setja upp mósaík mynd í Kop-stúkunni á Anfield og einnar mínútu þögn verður höfð í minningu Devine fyrir leik liðsins við Burnley um helgina sem er þeirra fyrsti heimaleikur á leiktíðinni.

Liverpool vann 3-0 útisigur á nýliðum Norwich í fyrsta leik en Jóhann Berg Guðmundsson og félagar hans í Burnley töpuðu 2-1 fyrir Brighton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×