Fótbolti

Reglur um fjár­hags­­lega hátt­­vísi á bak og burt svo mold­ríkir eig­endur geti eytt eins og þeim sýnist

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lionel Messi ásamt Nasser Al Khelaifi, forseta París-Saint Germain og ECA. 
Lionel Messi ásamt Nasser Al Khelaifi, forseta París-Saint Germain og ECA.  Sebastien Muylaert/Getty Images

Reglur UEFA um fjárhagslega háttvísi (FFP) eru á leiðinni í grunna gröf. Unnið er að nýju regluverki til að passa upp á eyðslu knattspyrnuliða í Evrópu. Félögin sem voru á bakvið hugmyndina að svokallaðri ofurdeild munu vinna saman að nýju regluverki.

Fyrr í vikunni fengu 9 af þeim 12 félögum sem sögðu sig úr ECA, samtök knattspyrnufélaga í Evrópu, til að stofna svokallaða ofurdeild aftur inngöngu í samtökin. Um er að ræða Manchester United og City, Liverpool, Chelsea, Arsenal, Tottenham Hotspur, Atlético Madríd ásamt Inter og AC Milan.

Real Madrid, Barcelona og Juventus eru enn að íhuga valmöguleika sína og hafa ekki reynt að komast aftur inn í ECA.

Þann 10. og 11. september munu forráðamenn og þau sem eiga hlut í stærstu liðum Evrópu hittast í Nyon í Sviss til að ræða framtíðina. Þau níu félög sem yfirgáfu ECA fyrr á þessu ári hafa kosningarétt og ljóst er að þau vilja breytingar.

Eftir að Andrea Agnelli hjá Juventus sagði stöðu sinni lausri sem forseti ECA þá steig Nasser Al-Khelaifi inn og tók við. Hann er því nú forseti París-Saint Germain og ECA. Hann er því valdamesti aðilinn þegar kemur að samræðum við Aleksander Ceferin, forseta knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.

Parísarliðið, líkt og Bayern München, neitaði að segja sig úr ECA til að taka þátt í ofurdeildinni svokölluðu. Það kom Al-Khelaifi í enn betri stöðu en áður þegar kemur að áhrif á regluverk í kringum knattspyrnulið álfunnar. Hann vill henda reglum um fjárhagslega háttvísi undir rútuna og taka upp lúxusskatt eins og þekkist í NBA-deildinni.

Ef lið fer yfir þá upphæð sem þá að geta eytt þá borgar það bara skatt. Einfaldara gæti það ekki orðið, eða hvað?

Talið er að reglur um lúxusskatt myndu fylgjast með stöðu mála hjá félögum í rauntíma, það væri ekki nóg að skila skjölum með fullt af tölum að tímabili loknu til að sýna fram á að félögin hefðu staðið sig í stykkinu. 

Til að mynda þyrftu þau félög sem taka þátt í Evrópukeppnum að skila inn staðfestingu á hvað þau eyddu í leikmenn, hver launakostnaðurinn þeirra sé og hvað þau borguðu umboðsmönnum mikið til þess að fá 25 manna hópa sína staðfesta.

Þó UEFA hafi alltaf haldið því fram að reglur um fjárhagslega háttvísi hafi myndað öruggara og stöðugra landslag í Evrópu þá hefur reynst erfitt að viðhalda regluverkinu. Einnig er ljóst að það hefur engan veginn komið í veg fyrir að félög taki hroðalegar ákvarðanir. Spænska stórveldið Barcelona verandi besta dæmið.

Segja má að reglur um fjárhagslega háttvísi hafi dáið þegar Alþjóða íþróttadómstóllinn dæmdi Manchester City í hag eftir að UEFA vildi meina að félagið hefði farið í kringum regluverkið og ætti að vera dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeild Evrópu. Það ásamt slökunum sem voru veittar vegna kórónuveirunnar hefur breytt landslag stórliða í Evrópu.

„Við erum nú að vinna í glænýjum fjárhagslegum raunveruleika,“ sagði Ceferin um málið sem mun án efa vekja enn frekari athygli eftir að ljóst er hvað verður ákveðið á fundinum 10. og 11. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×