Fótbolti

Tveir Ís­lendinga­slagir í Meistara­deild Evrópu um helgina og Blikar í beinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Breiðablik getur komist áfram í Meistaradeild Evrópu í dag.
Breiðablik getur komist áfram í Meistaradeild Evrópu í dag. Vísir/Hulda Margrét

Tveir Íslendingaslagir verða í forkeppni Meistaradeild Evrópu á morgun, laugardag. Einnig er Breiðablik í baráttunni um að komast áfram í keppninni. 

Ríkjandi Íslandsmeistarar Breiðabliks mæta Gintra frá Litáen í úrslitaleik um sæti í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu á morgun, laugardag. Leikurinn fer fram í Siauliai í Litáen og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.

Þá verða tveir Íslendingaslagir um sæti í 2. umferð á morgun, laugardag. 

Íslendingalið Kristianstad mætir Bordeux en Svava Rós Guðmundsdóttir, sem lék á sínum tíma með Kristianstad, er nú í herbúðum franska félagsins. Leikurinn fer fram í Kristianstad í Svíþjóð og hefst klukkan 18.00.

Elísabet Gunnarsdóttir er sem fyrr þjálfari Kristianstad. Þá leika Sif Atladóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir – á láni frá Wolfsburg - með liðinu. Kristianstad sló Barbáru Sól Gísladóttur og stöllur hennar í Bröndby út fyrr í 1. umferðinni.

Noregsmeistarar Vålerenga mæta svo gríska liðinu PAOK í Grikklandi klukkan 14.00 á morgun. Ingibjörg Sigurðardóttir og Amanda Andradóttir leika með Vålerenga á meðan Ingunn Haraldsdóttir, fyrrum fyrirliði KR, leikur með PAOK en hún samdi við liðið í síðasta mánuði. 

Útsending frá leik Breiðabliks og Gintra á Stöð 2 Sport 2 hefst klukkan 14.55 á morgun, laugardag. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 15.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×