„Hann var algjörlega frábær. Yfirvegaður á boltanum, fór ekki mikið fram en það var aldrei vesen þegar hann var á boltanum. Það fór enginn framhjá honum, allan leikinn. Hann vann auðvitað sína skallabolta en hann er svo klókur, kemur sér í góðar stöður og þetta atvik þarna er alveg galið. Talandi um að vera stríðsmaður og fórna sér fyrir málstaðinn. Hann er óhræddur og bjargar þarna marki,“ sagði fyrrum miðvörðurinn Reynir um frammistöðu Sölva Geirs í 2-1 sigri Víkinga á Íslandsmeisturum Vals.
Atvikið sem um er ræðir er þegar Sölvi Geir liggur á marklínunni og hendir sér með höfuðið á undan til að koma í veg fyrir mark. Atvikið má sjá hér að neðan.
„Þetta er dirfska á háu stigi hjá Sölva Geir Ottesen, fyrirliða Víkinga. Sjáum hann hér skutla sér á boltann og setja hvirfilinn í hann til þess að bjarga marki. Það má segja að hann hafi lagt allt í sölurnar,“ bætti Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, við er endursýningar af atvikinu rúlluðu.
Skulum ekki gleyma að Sölvi Geir lenti í flugslysi á bíl 18 ára en saumaði samt saman trylltan atvinnumannaferil með ónýtt bak og bar eitt sinn fyrirliðaband landsliðsins. Hann hefur verið stríðsmaður frá því ég tók á móti honum í Breiðó '95. Sterkasti gaur sem ég hef kynnst.
— Tómas Þór Þórðarson (@tomthordarson) August 22, 2021
„Arnar (Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga) talaði um það að stundum fær maður svona hugdettur og hann lét af því verða,“ bætti Kjartan Atli við um ákvörðun Arnars að setja Sölva Geir í hægri bakvörðinn.
„Yfirleitt þegar Arnari hefur dottið eitthvað í hug á þessu tímabili þá hefur það gengið upp. Ráku margir upp stór augu þegar Ingvar (Jónsson) er allt í einu kominn í markið. Þórður (Ingason) er búinn að standa sig vel en hann var með einhverja maga tilfinningu að núna á endasprettinum ætlaði hann að gefa Ingvari tækifæri. Hann var frábær í dag,“ sagði Reynir í kjölfarið.
„Þessi hugmynd – að setja Sölva Geir í hægri bakvörðinn, ég átti ekki von á því. Heimir (Guðjónsson, þjálfari Vals) átti ekki von á því fyrir leikinn. Hann hélt að Kári Árnason yrði á miðjunni eða þeir væru í fimm manna vörn. Þannig að þessir hlutir eru að ganga upp og Sölvi eins og hann er, tekur þessari áskorun og rúllar henni upp með leik upp á tíu,“ sagði Reynir að endingu um magnaða frammistöðu Sölva Geirs.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.