RÚV segir frá þessu og hefur eftir Helga Magnúsi Gunnarssyni vararíkissaksóknara. Kæra Samherja var send lögreglu á vordögum 2019. Lýsti lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sig þá vanhæfan til að taka afstöðu til kærunnar vegna tengsla og fól ríkissaksóknari þá lögreglustjóranum á Vestfjörðum málið með bréfi í júlí sama ár.
Sá hluti málsins sem varðaði meintan leka úr Seðlabankanum sneri að húsleit hjá Samherja í mars 2012 og hvort starfsmaður innan Seðlabankans hafi þá upplýst fréttamann Ríkisútvarpsins um að til stæði að gera húsleit hjá Samherja.
Í september 2019 beindi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra erindi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu varðandi umræddan leka og hafnaði það mál einnig á borði lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum vísaði báðum málum frá þann í byrjun mars og hefur ríkissaksóknari nú staðfest ákvörðun lögreglustjóraembættisins.