Innlent

Skiptu á strikamerkjum til að greiða tvö þúsund fyrir vörur að andvirði sjötíu þúsund

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verslun Ikea í Garðabæ.
Verslun Ikea í Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt erlend hjón í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stolið vörum úr Ikea með því að hafa tekið strikamerki af ódýrari vörum og sett á dýrari vörur.

Dómur í málinu féll í júlí en hjónum var gefið að sök að hafa, í félagi, afgreitt sjálf sig um sex vörur að andvirði 73.545 krónur á sjálfsafgreiðslukassa í verslun Ikea að Kauptúni í Garðabæ, í desember árið 2019.

Um var að ræða tvo dýra lampa og fjórar aðrar ódýrari vörur. Var hjónum gefið að sök að hafa nýtt sér strikamerki af öðrum vörum, nánar tiltekið fimm axlahlífum, einu viskustykki og einni pönnu, til þess að greiða aðeins 2.315 krónur fyrir vörurnar sem áttu að kosta rúmar 73 þúsund krónur.

Svipar aðferðinni sem hjónin beittu við þjófnaðinn við þeirri aðferð sem var notuð í Ikea-málinu svokallaða árið 2013, þar sem nokkrum einstaklingar var gefið að sök að hafa fært strikamerki af ódýrari vörum yfir á dýrari vörur.

Hjónin voru einnig ákærð fyrir að hafa stolið sex pakkningum af nautakjöti úr verslun Nettó við Fiskislóð í Reykjavík, að verðmæti 28.083 krónum.

Hjónin voru ekki viðstödd meðferð málsins fyrir Héraðsdómi. Höfðu þau ekki boðað forföll og nýtti dómari því sér heimild í lögum til að dæma í málinu að þeim fjarstöddum. Voru þau bæði dæmd í 30 daga fangelsi, sem fellur niður haldi hjónin skilorð í tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×