Ríkisstjórnin samþykkti tillögu flóttamannanefndar um að taka á móti allt að 120 manns frá Afganistan í vikunni. Ætlunin er að styðja við fjölskyldur fólks sem eru þegar á Íslandi og á rétt á fjölskyldusameiningu, einstaklinga í bráðahættu vegna starfa, ýmist fyrir Atlantshafsbandalagið eða í jafnréttismálum.
Það síðastnefnda á við um fjölskyldurnar tvær sem komu til landsins í gær. Mbl.is sagði frá komu þeirra í gærkvöldi. Sveinn Guðmarsson, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, segir við Vísi að þar séu á ferð tvær konur sem dvöldu á Íslandi við nám í því sem þá kallaðist Jafnréttisskóli Sameinuðu þjóðanna en kallast nú Jafnréttisskólinn Gró og fjölskyldur þeirra, alls sex manns.
Fólkið kemur hingað með milligöngu danskra stjórnvalda. Það fékk flugfar með Dönum frá Afganistan, fyrst til Islamabad í Pakistan og síðan áfram til Kaupmannahafnar.
Þá segir Sveinn að ráðuneytið viti af því að fjórir Afganar sem hafa dvalarleyfi á Íslandi séu einnig á leið til landsins.
Ráða fólki frá því að fara að flugvellinum
Loftbrú sem vestrænar þjóðir hafa haldið út frá flugvellinum í Kabúl er nú við það að lokast. Bresk stjórnvöld segjast ætla að ljúka brottflutningi í dag og bandarískt herlið ætlar að fara alfarið frá landinu á þriðjudag.
Sveinn segir að vegna þessa ráði íslensk stjórnvöld öllu því fólki sem þau hafa verið í sambandi við í Afganistan frá því að fara út á flugvöll í Kabúl.
Á annað hundrað manns féll í sjálfsmorðssprengjuárás í mannþröng fyrir utan flugvöllinn á fimmtudag. Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Afganistan lýstu yfir ábyrgð á ódæðinu. Bandarísk stjórnvöld búast við því að frekari hryðjuverk gætu verið framin nú síðustu daga brotthvarfsins frá Kabúl.
Framhaldið í komum afganskra flóttamanna til Íslands er því óljóst. Sveinn segir að samþykkt ríkisstjórnarinnar um móttöku flóttafólks standi óháð því hver staðan í landinu í augnablikinu.
Íslensk stjórnvöld hafa þegar lýst sig tilbúin að taka við að minnsta kosti tuttugu fyrrverandi starfsmönnum Atlantshafsbandalagsins og fjölskyldum þeirra frá Afganistan.